Kælitækni hlýtur alþjóðlegar gæða- og umhverfisvottanir

Kælitækni hefur náð mjög mikilvægum áfanga með því að hljóta bæði ISO 9001 og ISO 14001 vottun, sem er staðfesting á því að fyrirtækið vinni eftir ströngum alþjóðlegum stöðlum í gæða- og umhverfisstjórnun. Þetta er afrakstur mikillar og markvissrar vinnu starfsfólks Kælitækni, sem hefur lagt sig fram við að bæta ferla og þjónustu með það að markmiði að tryggja bæði gæði og sjálfbærni í starfsemi fyrirtækisins.

Árið 2024 hófst skipuleg vinna við að bæta innanhúsferla Kælitækni og í því ferli var ákveðið að taka upp ISO 9001 og ISO 14001 staðlana. Markmiðið var að efla gæðastjórnun fyrirtækisins og fá viðurkenningu á þá faglegu vinnu sem þar fer fram. Vottunin er því ekki einungis staðfesting á því sem hefur þegar verið gert, heldur einnig hvati til áframhaldandi umbóta og þróunar.

Ítarleg úttekt var svo framkvæmd á allri starfsemi Kælitækni nú í febrúar, þar sem allt sem snertir rekstur fyrirtækisins var metið samkvæmt kröfum staðlanna.

  • ISO 9001 er alþjóðleg viðurkenning á skuldbindingu fyrirtækisins til að veita hágæða vörur og framúrskarandi þjónustu. Vottunin staðfestir að Kælitækni vinnur eftir skilvirkum ferlum og leggur áherslu á stöðugar umbætur í þágu viðskiptavina.
  • ISO 14001  undirstrikar þá stefnu Kælitæknis að vera leiðandi í umhverfisvænum lausnum. Með því að innleiða markviss umhverfisstjórnunarkerfi leggur fyrirtækið sitt að mörkum til að draga úr umhverfisáhrifum sem hlýst af starfseminni. Eitt mikilvægasta skrefið í þeirri vegferð er að fasa út F-gös og vinna að sjálfbærari lausnum í kælitækni.

Að fá þessar vottanir er mikilvægur áfangi, en jafnframt aðeins fyrsta skrefið í áframhaldandi vegferð. Stöðugar umbætur eru rauði þráðurinn í þessari vinnu og Kælitækni mun áfram leggja áherslu á að bæta ferla og þróa lausnir sem stuðla að betri þjónustu, auknum gæðum og minni umhverfisáhrifum.

Við viljum þakka starfsfólki okkar fyrir framúrskarandi vinnu og viðskiptavinum fyrir það traust sem þeir sýna okkur. Með þessari vottun er Kælitækni enn betur í stakk búið til að mæta þörfum markaðarins og styðja viðskiptavini með hágæða umhverfisvænum lausnum í kælitækni.

Scroll to Top